Alvarleg ecoli-hópsýking, læknisþjónusta á landsbyggðinni, væringar innan norsku ríkisstjórnarinnar

Spegillinn - En podkast av RÚV

27 börn hafa greinst með eiturmyndandi Ecoli í hópsýkingu á leikskólanum Mánagarði í Reykjavík. Verið er að rannsaka hvernig börnin veiktust en grunurinn hefur einna helst beinst að nautahakki. Þetta er alvarlegasta hópsýking af þessu tagi frá því fyrir fimm árum, og þá sem nú voru það börn sem veiktust. Freyr Gígja Gunnarsson kynnti sér málið og ræddi við Vigdísi Tryggvadóttur sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun. Starf eða embætti héraðslæknis er ekki jafn eftirsótt og það eitt sinn var. Í vikunni bárust fréttir af því að sveitarfélög á Vesturlandi vilji leggja heilbrigðisstofnunum lið við að manna lítt eftirsóttar stöður og vinnuálagið er til umræðu í kjarabaráttu lækna. Gréta Sigríður Einarsdóttir ræðir við Sigurð Einar Sigurðsson framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Steinunni Þórðardóttur formann Læknafélagsins. Ásakanir um pólitískt vændi fjúka milli stjórnarflokkanna. Forsætisráðherra skammar dómsmálaráðherrann fyrir ljótt orðbragð. Þannig er staðan við ríkisstjórnarborðið í Ósló. En dugar þetta til að stjórnin falli ári áður en kjörtímabili lýkur rétt eins og gerðist á Íslandi? Gísli Kristjánsson, fréttaritari í Ósló, er með meira um ástandið í konungsríki frænda okkar austan Atlantsála. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon