46 | Brexit, #MeToo og Julian Assange

Heimskviður - En podkast av RÚV - Lørdager

Í Heimskviðum í dag erfjallað um næsta kafla í sögunni endalausu, úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Julian Assange og #MeToo í Danmörku. Brexit-sagan endalausa tók á sig nýja mynd í síðustu viku þegar Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands lagði fram nýtt frumvarp, sem brýtur í bága við alþjóðalög og útgöngusamning Breta við Evrópusambandið. Margir hafa brugðist ókvæða við, þar á meðal Evrópusambandið, sem er einmitt í viðræðum við Bretland um fríverslunarsamning. Hallgrímur Indriðason skoðar þessa nýju stöðu og möguleg áhrif hennar á útgöngu Breta. Önnur MeToo bylgja ríður nú yfir í Danmörku. Á annað þúsund konur í fjölmiðlum þar í landi lýsa yfir stuningi við nýlega frásögn Sofie Linde af áreitni og misrétti í starfi sínu. Allir virðast sammála um að kynbundið misrétti og áreitni eigi ekki að viðgangast í Danmörku, en það virðist hægara sagt en gert að uppræta það. Birta Björnsdóttir fjallar um málið. Málsmeðferð Julian Assange, stofnanda Wikileaks, hófst að nýju í Lundúnum í síðustu viku. Bandaríkjastjórn hefur farið fram á að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna vegna birtingar á gögnum sem sína fram á stríðsglæpi Bandaríkjanna í Afganistan og Írak. Nýir ákæruliðir hafa litið dagsins ljós en málið er á lægsta dómstigi í Bretlandi. Guðmundur Björn ræðir við Kristinn Hrafnsson, ristjóra Wikileaks og nánasta eins nánasta samstarfsmanns Assange. Kristinn segir ljóst að ef Assange verður framseldur til Bandaríkjanna, breyti dómurinn blaðamennsku til framtíðar, þar sem þeir sem fjalli um málefni Bandaríkjastjórnar geti hvergi um frjálst höfuð strokið. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.