37 | Sinnuleysið í Ischgl, ríkisstjórn í Ísrael og barnarán í Kína
Heimskviður - En podkast av RÚV - Lørdager
Kategorier:
Í þrítugasta og sjöunda þætti Heimskviða er fjallað um skíðabæinn alræmda, Ischgl í Austurríki. Stjórnarandanstæðingar í Austurríki segja að hagsmunatengsl ferðaþjónustunnar í Tírol og yfirvalda í Austurríki skýra sinnuleysi gagnvart útbreiðslu Covid-19 í bænum. Þúsundir taka nú þátt í hópmálsókn og fara fram á bætur frá Austurríska ríkinu vegna veikindanna en ýmislegt bendir til þess að ferðamálayfirvöld á skíðasvæðunum hafi leynt veikindum bæði starfsmanna og ferðamanna frá því í byrjun febrúar, löngu áður en íslensk yfirvöld vöruðu við smitum sem voru rakin til skíðasvæða alpanna. Bjarni Pétur Jónsson fjallar um málið. Eftir þrennar kosningar á innan við ári, er loks komin ný ríkisstjórn í Ísrael. Í forsetisráðherrastólnum situr þó áfram gamall refur, Benjamín Netanjahú. Að minnsta kosti næsta hálfa árið eða svo, þar til Benny Gantz tekur við stjórnartaumunum. Gantz hefur verið harður andstæðingur Netanjahús en þeir hafa loks tekist að sættast á að mynda saman ríkisstjórn. En hvers vegna hefur þetta tekið svona langan tíma? Hvers vegna ná þessir ólíku stjórnmálamenn saman núna og hvaða áhrif mun þessi ríkisstjórn hafa á frekari landtökubyggðir á Vesturbakkanum? Guðmundur Björn segir frá. Fjölmiðlar í Kína fylgdust í vikunni með langþráðum endurfundum ungs manns og foreldra hans. Þau höfðu ekki hist í 32 ár eða frá því að syninum var rænt þegar hann var tveggja ára gamall. Þúsundum barna er rænt á ári hverju í Kína, og þau ganga kaupum og sölum. Birta Björnsdóttir fjallar um kínversk barnarán. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.