169 - Íþróttaþvætti Sádi Araba og kosningaeftirlit ÖSE

Heimskviður - En podkast av RÚV - Lørdager

Yfirvöld í einræðisríkinu Sádi-Arabíu eru sökuð um íþróttaþvætti (sportswashing á ensku) með því að setja fjármuni í íþróttir víða um heim til að bæta ímynd sína. Þetta hefur víða heppnast vel frá þeirra sjónarhóli. Eitt dæmi um þetta er að síðasta sumar komu margir af bestu knattspyrnumönnum heims í lið í sádiarabísku deildinni gegn himinháum launum. Sú tilraun virðist ekki ganga vel og farið er að bera á ósætti og jafnvel brotthvarfi leikmanna. Hallgrímur Indriðason skoðar ástæðurnar fyrir því, og hvaða áhrif það hefur. Meira en helmingur af heimsbyggðinni gengur að kjörborðinu á þessu ári, rúmlega fjórir milljarðar manna. En þrátt fyrir það á lýðræðið mjög undir högg að sækja, því víða er ekki gert nóg til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar. Kjördagur er bara toppurinn á ísjakanum, fyrir þau sem fylgjast með og hafa eftirlit með kosningum í aðildarríkjum ÖSE - Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu. Þetta eru þau sammála um, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum yfirmaður hjá ÖSE, og Albert Jónsson, fyrrum sendiherra í þessari umfjöllun Björns Malmquist. Undanfarin ár hafa þau bæði leitt hópa sérfræðinga sem aðildarríki samtakanna hafa boðið að koma og meta undirbúning og framkvæmd kosninga, en ekki síður hvort stjórnvöld í viðkomandi ríki sjái til þess að stjórnmálaflokkar hafi jöfn tækifæri til að koma sínum málstað á framfæri; hvort kjósendur hafi forsendur til að taka upplýsta ákvörðun. Með öðrum orðum: hvort lýðræðið virkar.