164| Undirheimastríð í Svíþjóð og það besta og versta á Indlandi.

Heimskviður - En podkast av RÚV - Lørdager

Svíar vonast til að glæpahrina haustsins sé á enda. Dregið hefur úr skot- og sprengjuárásum nærri sænsku höfuðborginni frá því mest var í september og október. Aðferðir glæpagengjanna sænsku og árásir eru óvenju hrottalegar. Börn og ungmenni eru fengin til að fremja voðaverkin og æðstu kónarnir hundelta hver annan um alla Evrópu eins og í mafíumyndum eða glæpasögum frá Hollywood. Sænsk yfirvöld eiga erfitt með að bregðast við og stjórnmálamenn að koma sér saman um leiðir. En hvers vegna er svona komið fyrir fyrirmyndarríkinu Svíþjóð? Hvernig gengur yfirvöldum að bregðast við og hvers vegna gerist þetta núna? Sváfu yfirvöld og Svíar á verðinum eða eru evrópsk glæpa- og eiturlyfjagengi að styrkjast og orðin ófeimnari við að heyja undirheimastríð sín fyrir augum almennings. Indverjar náðu þeim merka áfanga fyrr á þessu ári að verða fjölmennasta þjóð heims og mörg af efnuðustu löndum heims keppast við að koma á viðskiptum við Indland enda hvergi í heiminum jafn mikill hagvöxtur og þar. Það er ekki hægt að fullyrða eitt eða neitt varðandi Indland því þar er hægt að finna allt það besta og um leið það versta í einu og sama ríkinu. Land þar sem upplýsingaóreiða og um leið hatursorðræða í garð minnihlutahópa fær að blómstra og dafna í skugga þjóðernisflokks hindúa. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.