Úkraína, Serbía, Níkaragúa og forsetakosningar í Finnlandi

Heimsglugginn - En podkast av RÚV

Björn Þór Sigbjörnsson og Eyrún Magnúsdóttir ræddu við Boga Ágústsson um leiðtogafund ESB þar sem málefni Úkraínu verða á dagskrá, þingkosningar í Serbíu, ungfrú alheim sem er í ónáð stjórnvalda í Níkaragúa og komandi forsetakosningar í Finnlandi. Leiðtogafundur Evrópusambandsins í dag snýst að miklu leyti um málefni Úkraínu, annars vegar áframhaldandi fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning, hins vegar tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að bjóða Úkraínu að hefja aðildarviðræður. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, er því andsnúinn og getur hindrað stuðning og aðildarviðræður þar sem samþykki allra þarf. Þingkosningar verða í Serbíu á sunnudaginn og útlit er fyrir að stjórnarflokkurinn haldi völdum. Það yrði enn einn sigur popúlista því landið hefur verið á stöðugri leið til hins verra frá 2012 er Framfaraflokkurinn komst til valda. Þar hefur þróun orðið svipuð og í Ungverjalandi, vegið að sjálfstæði dómstóla, fjölmiðla og annarra lýðræðislegra stofnana, spilling hefur stóraukist undir forystu forsetans Aleksandar Vucic. Að auki hafa Serbar troðið illsakir við granna sína á Balkanskaga. Annað einræðisríki er Níkargúa og kjör Miss Universe hefur hrætt Daniel Ortega einræðisherra sem ekki hefur þolað fjöldasamkomur frá því að hann barði niður lýðræðiskröfur almennings 2018 þar sem hundruð manna voru myrt. Sheynnis Alondra Palacio, Ungfrú Níkargúa, var kjörinn ungfrú alheimur í nóvember og þá þusti mannfjöldi út á götur og fagnaði. Bláhvítum fána landsins var veifað en Ortega og Sandinstahreyfing hans vill ekki að þeir litir séu notaðir, rautt og svart eru litir Sandinista og þá vill forsetinn sjá. Þess vegna virðist hann og ættarveldi hans líta á það sem pólitísk mótmæli að fegurðardrottningin var í hvítum kjól með ljósbláa slá um herðarnar þegar hún var krýnd. Í lokin var fjallað um forsetakosningarnar í Finnlandi þar sem Alexander Stubb nýtur mests fylgis. Stubb er fyrrverandi forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra. Hann er 55 ára, nam stjórnmálafræði í Bandaríkjunum, Evrópuháskólanum í Belgíu og við Sorbonne háskóla í París. Hann varði svo doktorsritgerð í Evrópufræðum frá London School of Economics. Hann starfaði í finnska utanríkisráðuneytinu og fyrir Evrópusambandið uns hann settist á Evrópuþingið 2004. Stubb dró sig út úr finnskum stjórnmálum 2016 þegar hann tapaði leiðtogakosningum í flokki sínum, Kokoomus/Samlingspartiet, fyrir Petteri Orpo núverandi forsætisráðherra. Stubb er mikill íþróttaáhugamaður, lék íshokkí í æsku og var um tíma í finnska golflandsliðinu og ætlaði að verða atvinnumað