Sunak í ólgusjó, sviptingar í Portúgal
Heimsglugginn - En podkast av RÚV
Kategorier:
Heimsglugginn á Morgunvaktinni á Rás 1 fjallaði um átök í stjórnmálum á Bretlandi og í Portúgal. Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands gerði verulegar breytingar á ríkisstjórn sinni á mánudag. Suella Braverman innanríkisráðherra var rekin, James Cleverly tók við embætti hennar og David Cameron varð utanríkisráðherra í stað Cleverlys. Braverman birti afar harðort bréf daginn eftir brottreksturinn, þar sem hún sakaði Sunak um svik við sig, hann væri huglaus, óhæfur og umboðslaus. Fréttaskýrendur sögðu bréf hennar illgjarnt, grimmilegt og ofsafengið. Einar Logi Vignisson var svo gestur Heimsgluggans og sagði frá sviptingum í stjórnmálum í Portúgal. Einar Logi er framkvæmdastjóri RÚV Sölu en hefur búið í Portúgal og þekkir afar vel til þar. Forsætisráðherra Portúgals, Antonio Costa, sagði af sér í síðustu viku, eftir að einn nánasti ráðgjafi hans var handtekinn í tengslum við spillingarrannsókn. Forseti Portúgals, Marcelo Rebelo de Sousa, ákvað að efna yrði til nýrra þingkosninga en ekki fyrr en á næsta ári. Hann skipaði Costa forsætisráðherra fram að kosningum.