Átök popúlista og lýðræðissinna
Heimsglugginn - En podkast av RÚV
Kategorier:
Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu að þessu sinni við Boga Ágústsson um átök popúlista og lýðræðissinna víða um heim. Þau ræddu um Argentínu, Venesúela, Bandaríkjaþing, Slóvakíu, Ítalíu, Pólland og Bretland. Í Argentínu má segja að tveir popúlistar takist á um forsetaembættið. Annar er hagfræðingurinn Javier Milei, sem hefur verið lýst sem pólitískum utangarðsmanni, jafnvel hægrisinnuðum anarkista. Hinn er Sergio Massa efnahagsráðherra úr Perónistaflokknum Union por la Patria. Öllum á óvart fékk Massa fleiri atkvæði en Milei í fyrri umferð kosninganna. Þeir tveir verða í framboði í seinni umferð forsetakosninganna 19. nóvember. Argentínumenn glíma við mikinn efnahagsvanda, verðbólga er 140 prósent, skuldir ríkisins gríðarlegar og lífskjör fara versnandi. Milei segir að Argentína geti að nýju komist í hóp ríkustu landa heims eins og var á 19. öld með stórkostlegum niðurskurði ríkisútgjalda, taka upp dollar og afnema reglur og höft. Í Venesúla er efnahagsástandið enn verra, þar er verðbólga 700 prósent. Tæplega átta milljónir manna hafa flúið Venesúela frá 2014 og er talið að eftir séu í landinu um 28 milljónir manna. Stjórn og stjórnarandstaða gerðu samkomulag í síðustu viku um lýðræðislegar forsetakosningar á næsta ári og var hluti samkomulagsins að stjórnarandstæðingar fengju að velja sér forsetaframbjóðanda í forvali. Þrátt fyrir samkomulagið gerðu stjórnvöld stjórnarandstæðingum erfitt fyrir er efnt var til forvals um helgina. Fjölmiðlum var bannað að fjalla um það, ekki var leyft að kjósa í opinberum byggingum eins og skólum, vefsíður með upplýsingum um kjörstaði og forvalið voru teknar niður. Engu að síður tókst að halda forvalið og María Corina Machado vann afgerandi sigur. Hún hefur lengi verið stjórnvöldum erfiður andstæðingur, bæði Hugo Chavez og Nicolás Maduro núverandi forseta. Í Evrópu hefur Giorgia Melone verið forsætisráðherra Ítalíu í eitt ár, vikuritið Stern í Þýskalandi sagði Meloni hættulegustu konu Evrópu, Economist segir Marine Le Pen miklu hættulegri. Við valdatöku hægristjórnar Melones veltu margir fyrir sér hvaða stefnu hún tæki í utanríkismálum. Það hefur komið á óvart að stjórn hennar hefur ekki gert neinar stórar breytingar, hvorki gagnvart NATO eða ESB. Francesco Battistini, blaðamaður Corriere della Sera, sagði í viðtali við SVT að Melone hefði verið mjög gagnrýnin á ESB í stjórnarandstöðu en tekið allt aðra afstöðu sem forsætisráðherra, hún hafi náð góðu sambandi við Joe Biden og farið að ráðum Bandaríkjanna að minnka samstarf við Kínverja og hætt við að leyf