Staðan í Úkraínu og ekið í hóp hátíðargesta í Belgíu

Hádegið - En podkast av RÚV

Sex létust og tugir særðust, þar af tíu lífshættulega, þegar bíl var ekið á ofsahraða inn í hóp fólks sem safnast hafði saman til að halda skrúðgöngu í belgíska bænum Strépy-Bracquegnies í gærmorgun. Ökumaður bílsins og farþegi hans voru handteknir á vettvangi og beðið er niðurstaðna úr blóðprufum sem skera úr um hvort ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum. Talið er að þeir hafi verið á heimleið af næturklúbbi þegar atvikið varð. Við könnum málið nánar í fyrri hluta þáttarins. Frá því innrás Rússa hófst þann 24. febrúar hafa yfir 3,3 milljónir Úkraínumanna flúið land, og þúsundir almennra borgara fallið. Verst er ástandið í hafnarborginni Mariupol, hvar yfir 2.000 almennir borgarar hafa verið myrtir í árásum Rússa. Friðarviðræður Rússa og Úkraínustjórnar ganga hægt og illa, og hefur Volodymir Zelensky, forseti Úkraínu, sagt að samningaviðræður við Rússa séu hvorki einfaldar né geðfelldar, en nauðsynlegar. Við förum yfir stöðuna í Úkraínu, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.