Örskýring og viðbrögð íþróttasamfélagsins við innrás Rússa í Úkraínu

Hádegið - En podkast av RÚV

Rússar réðust inn í Úkraínu í síðustu viku og eins og staðan er í dag sér ekki fyrir endann á þeim hörmungum. Á sama tíma geisar upplýsingarstríð á internetinu þar sem fölskum upplýsingum er komið á framfæri í fjölbreyttum tilgangi. Fjölmiðlar og almenningur falla í gildur sem komið hefur verið fyrir á samfélagsmiðlum en ástandið gerir það að sannreyna upplýsingar flókið og erfitt, þó einhverjir hafi sem betur fer tekið það að sér. En hvað er upplýsingastríð og hvernig er það háð? Hver er tilgangurinn með dreifingu falskra upplýsinga og hvernig dreifast þær? Atli Fannar Bjarkason skoðar málið í örskýringu vikunnar. Ýmis íþróttasamtök og -sambönd hafa útilokað Rússa frá allri keppni í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Samtök á borð við Alþjóða-, Evrópska- og íslenska knattspyrnusambandið, Evrópska handknattleikssambandið, Alþjóðakörfuknattleikssambandið og Alþjóða frjálsíþróttasambandið. Þá hefur Alþjóða Ólympíunefndin kallað eftir banni við þátttöku Rússa í allri alþjóðlegri íþróttakeppni og í gær tilkynnti Alþjóðanefnd fatlaðs íþróttafólks að það yrði einnig gert á Vetrarólympíumótinu, sem hófst í dag. Þess utan hafa íþróttaviðburðir sem áttu að fara fram í Rússlandi verið færðir, einstaka leikmenn hafa sýnt stuðning sinn við Úkraínu með einum eða öðrum hætti, jafnvel rússneskir íþróttamenn, eins og skákmaðurinn og stórmeistarinn Alexander Grischuk og þá hefur Rússinn og milljarðamæringurinn Roman Abramovich, eigandi enska knattspyrnufélagsins Chelsea, ákveðið að víkja, selja félagið og láta ágóðann renna til fórnarlamba stríðsins í Úkraínu. Abramovich hefur oft verið sagður náinn vinur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, en vísar því þó sjálfur á bug. Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður ræðir við okkur um viðbrögð íþróttasamfélagsins við innrás Rússa í Úkraínu í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.