Horfurnar í ferðaþjónustu og nýliðar í NATÓ?

Hádegið - En podkast av RÚV

Fyrir rétt rúmri viku hækkaði Peningastefnunefnd Seðlabankans stýrivexti um heilt prósentustig - og þeir eru nú 3,75 prósent. Verðbólga mælist nú langt yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans - er nú 7,2 prósent og hefur ekki verið meiri í um tólf ár. Á meðan sumir gagnrýna hækkunina - segja hana á kostnað almennings í landinu - standa aðrir í þeirri meiningu að hækka þurfi stýrivexti enn frekar til að mæta verðbólgunni - sem spáð er að aukist áfram. En það er ljós í myrkrinu: Til dæmis eru horfurnar í ferðaþjónustunni góðar og betri en þær hafa verið um nokkurt skeið. Magdalena Anna Torfadóttir, sérfræðingur Hádegisins í efnahagsmálum og blaðamaður á Fréttablaðinu, segir okkur betur frá stöðunni og horfunum í fyrri hluta þáttarins. Allt bendir til þess að aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins NATÓ fjölgi um tvö innan skamms, en ráðamenn á Norðurlöndunum Finnlandi og Svíþjóð íhuga nú alvarlega að ganga í varnarsamstarfið. Guðmundur Björn ræðir við Brynju Huld Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðing, um málið í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.