Fagfjárfestar og staðan í Úkraínu
Hádegið - En podkast av RÚV
Kategorier:
Svalt, Íslensk tónlist og Bananalýðveldið - eru nöfn á þremur af rúmlega tvö hundruð aðilum sem metnir voru hæfir til að taka þátt í útboði á 22,% hlut í Íslandsbanka á dögunum. Þá var þeim fagfjárfestum sem metnir voru hæfir boðið að kaupa ríkisbréfin með fimm prósenta afslætti - og það þrátt fyrir að veruleg umframeftirspurn hafi verið eftir hlutabréfunum, samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins. Fyrirkomulag sölunnar hefur verið umdeilt og gagnrýnt: Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að spákaupmönnum hafi verið hjálpað til að skotgræða á ríkiseign og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hyggst fá Ríkisendurskoðun til að fara yfir útboðið. Allur hlutur ríkisins í bankanum verður svo seldur í skrefum á næstu misserum. En - ef við bökkum aðeins - hvað er fagfjárfestir? Er einhver munur á slíkum fjárfesti og þeim sem keypti fyrir hundrað þúsund kall í Icelandair til að vera með í útboðinu? Við skoðum málið með Atla Fannari Bjarkasyni, örskýranda Hádegisins. Átökin í Úkraínu halda áfram, en sex vikur eru nú liðnar frá því rússneski herinn hóf innrás í landið. Rússar hafa náð á sitt vald héruðum í norður-, austur- og suðurhluta landsins sem eiga landamæri að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi eða liggja að Krímskaga. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt hernaðinn og gripið hefur verið til refsiaðgerða sem fá ef nokkur fordæmi eru fyrir. Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, eru nú á leið til Kyiv höfuðborgar Úkraínu, en Von der Leyen greindi frá því fyrr í vikunni að íbúar Úkraínu þyrftu á samstöðu Evrópu að halda og með ferðinni væri ætlunin að senda skýr skilaboð um órjúfanlega samstöðu með þeim og baráttu þeirra fyrir sameiginlegum gildum. Í gær bárust þær fréttir að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefði samþykkt að víkja Rússlandi úr mannréttindaráðinu í kjölfar ásakana um að Rússar hefðu framið stríðsglæpi í Úkraínu. Jón Ólafsson, prófessor og sérfræðingur í málefnum Rússlands, lítur við í síðari hluta þáttarins og fer yfir nýjustu vendingar í þessu hörmulega stríði. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.