Áhrif Covid-19 á heilann og geimátök vegna innrásar Rússa

Hádegið - En podkast av RÚV

Við hefjum þáttinn á Covid-umfjöllun. Nýleg rannsókn í vísindatímaritinu Nature hefur vakið þó nokkra athygli, en í henni kemur fram á heilinn í þeim sem hafa fengið Covid-19 sjúkdóminn, getur dregist saman um allt að tvö prósent. Þá getur Covid haft langvarandi áhrif á minni og vitræna- eða skilvitlega getu, sem og lyktarskyn. Guðmundur Björn kannar málið í fyrri hluta þáttarins. Innrás Rússa í Úkraínu hefur víðtæk áhrif - svo víðtæk að þau teygja sig alla leið út í geim. Nú hafa borist fregnir af því að innrásin geti haft áhrif á afdrif Alþjóðageimstöðvarinnar, ISS, sem hefur verið á sporbaug um jörðu síðan 1998. En stöðin - sem er um átta þúsund fermetrar að flatarmáli og fer hringinn í kringum jörðina á um níutíu mínútum, hefur verið mönnuð óslitið síðan í nóvember árið 2000, einkum af Bandaríkjamönnum og Rússum. Sem stendur eru nú tveir rússneskir geimfarar um borð, einn evrópskur og fjórir bandarískir - og engin undankomuleið. Reynt mun vera að halda þeim fyrir utan deilur og átök á jörðu niðri eftir fremsta megni. Þrátt fyrir það hafa rússnesk stjórnvöld hótað að taka geimstöðina af sporbaug, og jafnvel sagt að harðar þvinganir vestrænna ríkja gegn Rússlandi geti leitt til þess að Alþjóðageimstöðin brotlendi jafnvel í Evrópu eða Bandaríkjunum. Auðkýfingurinn Elon Musk, stofnandi SpaceX geimferðafyrirtækisins, hefur þó sagst munu stíga inn í og koma til bjargar fylgi rússnesk stjórnvöld þessum stóru orðum eftir. Við berum stöðuna undir Sævar Helga Bragason vísindamiðlara með meiru, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.